FGR Bagtags – Reglur og Skilmálar

Hvað eru bagtags?

Bagtags eða Töskumerki eru öflug leið til að hvetja til innbyrðis keppni milli félaga í Frisbígolffélagi Reykjavíkur (FGR). Þegar þú gengur í félagið og greiðir félagsgjald, færðu merki með númeri sem samsvarar röð greiðslunnar – því fyrr sem þú gengur í félagið, því lægra númer færðu.

Merkin eru gefin út við upphaf tímabilsins og verða einnig endurnýjuð árlega með nýrri hönnun. Númeraröðin heldur áfram frá fyrri árum, sem gerir eldri merkin sjaldgæfari eftir því sem tíminn líður.

Fyrir árið 2025 eru númer 1–250 í dreifingu. Númerin skiptast svona:

  • 1–25: Sólarmerki

  • 26–75: Fjólumerki

  • 76–250: Mánamerki

Töskumerki veitir þér rétt til að taka þátt í innbyrðis keppni við aðra félagsmenn í FGR og vinna þig upp í númeraröðinni.

Reglur

  • Leikmenn með töskumerki geta skorað hver á annan í bæði skipulögðum mótum og æfingahringjum.

  • Ef allir í hollinu eru með töskumerki, taka þeir sjálfkrafa þátt ef einhver skorar á annan.

  • Að loknum hringi vinnur sigurvegarinn lægsta númerið, og númerin raðast síðan í samræmi við lokastöðu hollsins.

  • Eingöngu greiddir félagar í FGR geta tekið þátt í töskumerkiskeppni sem stendur.

  • Ekki er hægt að skora á leikmenn úr öðrum hollum en þínu eigin.

  • Ef leikmaður á tvö töskumerki (frá fyrri árum), keppir hann alltaf um það merki sem er næst í númeraröðinni miðað við andstæðing sinn.

  • Leikmaður sem hafnar áskorun verður undantekningalaust settur á "Wall of Shame" inn í geisla þangað til hann samþykkir áskorun.

  • Í töskumerkjaáskorunum er stuðst við PDGA reglur.

  • Reglurnar gilda bæði hérlendis og erlendis..

Hvað gerist ef ég týni töskumerkinu mínu?

Ef leikmaður týnir töskumerkinu sínu getur hann keypt nýtt með nýju númeri fyrir 5.000 kr.

Langar þig í töskumerki?

  • Töskumerki fylgir með skráningu í FGR og er hluti af félagsaðildinni.

  • Í framtíðinni munum við einnig bjóða upp á sölu töskumerkja til almennings.

Af hverju ætti ég að taka þátt?

Töskumerkjakeppnin er skemmtileg leið til að keppa, bera sig saman við aðra og bæta sig í keppni. Kerfið þróast með tímanum þannig að leikmenn keppa að mestu við aðra í svipuðum styrkleika.

Að auki er þetta frábær leið til að skapa spennu í æfingahringum og undirbúa sig fyrir mót.

Með því að fylgja reglunum og taka þátt í töskumerkjakeppninni hjálparðu til við að byggja upp virka og skemmtilega frisbígolfmenningu innan FGR!

Ertu tilbúinn að keppa?

Gakktu í FGR, tryggðu þér töskumerki og byrjaðu að spila!